Tækifæri

Nýr frásogshvati
Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í Lyfjafræðideild, er uppfinningamaður að nýjum frásogshvata sem nýtanlegur er á slímhimnur, t.d. í nefi. Uppfinningin hefur verið samþykkt af bandaríska lyfjaeftirlitinu, FDA, fyrir flogaveikilyfið Nayzilam sem gefið er sjúklingum sem fá raðflogaveikiköst með nefúða í stað stungulyfs. Nayzilam er fyrsta nefúðalyfið sem byggist á þessu einkaleyfi. Lyfinu er ætlað að lina þjáningar milljóna manna um heim allan á næstu árum. Unnið er að hagnýtingu uppfinningarinnar fyrir önnur lyf. Háskóli Íslands og Hananja ehf. hafa einkaleyfi á tækninni.

Vængur
Sólrún Traustadóttir og Andri Orrason eru hönnuðir að væng á kappakstursbíl úr koltrefjum sem smíðaður er í heilu lagi en þannig má losna við sam¬skeyti og þá galla sem þeim fylgja. Uppfinningin felur það í sér að framleiðsluferlið einfaldast og styttist til muna. Háskóli Íslands hefur sótt um einkaleyfi á tækninni.

Notkun stöðugra stakeinda
Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands starfar við lífræna efnafræði, en sérsvið hans eru kjarnsýruefnafræði og efnafræði stöðugra stakeinda. Snorri Þór ásamt samstarfsmönnum í Frakklandi hafa smíðað og eru uppfinningamenn að stöðugum tvístakeindum í því augnamiði að magna kjarnaskautun (e. dynamic nuclear polarization), en það leiðir til mikillar styttingar á mælitíma segulómunarmælinga. Grenoble-Alpes háskóli og Háskóli Íslands hafa sótt um einkaleyfi sameiginlega á tækninni.

Efnahvatar
Egill Skúlason, prófessor í Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, hefur þróað aðferð þar sem rafmagn eða sólarljós er nýtt til þess að breyta nitri úr andrúmsloftinu og vatni í ammóníak sem síðan má nota til áburðarframleiðslu. Háskóli Íslands hefur einkaleyfi á tækninni og gert nytjaleyfissamning við Atmonia ehf., sprotafyrirtæki Háskóla Íslands, um hagnýtingu. Egill Skúlason, prófessor hefur einnig þróað aðferð við að afoxa koltvíildis (CO2) í eldsneyti. Háskóli Íslands er með einkaleyfi á tækninni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is