Lög um uppfinningar starfsmanna

Þann 1. janúar 2005 tóku gildi lög um uppfinningar starfsmanna. Með starfsmönnum er bæði átt við opinbera starfsmenn og starfsmenn hjá einkaaðilum. Lögin gilda einungis um uppfinningar á tæknisviði, í skilningi einkaleyfalaga nr. 17/1991 en taka ekki til t.d. höfundar-, yrkis- eða hönnunarréttar. Hafa ber í huga að lögin eru að mestu frávíkjanleg. Þannig geta aðilar samið um annað en fram kemur í lögunum að undanskildum tilteknum ákvæðum sem getið verður um hér á eftir. 

Helstu efnisákvæði laganna eru eftirfarandi:

Samkvæmt lögunum á starfsmaður rétt til uppfinningar og getur atvinnurekandi krafist framsals réttarins til sín ef að hagnýting hennar er á starfssviði atvinnurekandans eða uppfinning tengist tilteknu verkefni sem starfsmanni hefur verið falið.

Starfsmaður skal tilkynna atvinnurekanda með sannarlegum hætti um uppfinninguna, án ástæðulauss dráttar, þannig að hann geti metið mikilvægi hennar. Atvinnurekandi hefur 3 mánuði frá tilkynningu til að meta og skýra starfsmanni frá því hvort að hann vilji hagnýta uppfinninguna. Á þeim tíma hvílir algjör þagnarskylda á starfsmanni um uppfinninguna, nema atvinnurekandi samþykki annað. Starfsmaður getur þó alltaf sótt um einkaleyfi á uppfinningunni þessa 3 mánuði, hafi hann gefið slíka tilkynningu til atvinnurekanda, og er það ófrávíkjanlegt ákvæði.

Starfsmaður á rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir framsal uppfinningar sem er ófrávíkjanlegt, nema verðmæti uppfinningar fari ekki fram úr því sem ætla mætti með sanngirni að starfsmanni beri að inna af hendi með tilliti til heildarkjara hans. Við ákvörðun endurgjalds ber að taka tillit til verðmætis uppfinningar og mikilvægis hennar fyrir starfsemi atvinnurekandans, ráðningarkjara starfsmanns og hlutdeildar starfsmanns í uppfinningunni. Ef starfsmaðurinn er ráðinn til að vinna að uppfinningum má semja um að sanngjarnt endurgjald fyrir uppfinningu felist í ráðningarkjörum starfsmanns einvörðungu.

Sæki starfsmaður um einkaleyfi á uppfinningu innan sex mánaða frá raunverulegum starfslokum telst uppfinningin hafa orðið til á starfstíma nema starfsmaður leiði líkur að öðru. Lögin leyfa ekki frávik frá þessari reglu, til dæmis er óheimilt að lengja framangreint tímabil í ár með samningi milli starfsmanns og fyrirtækis.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is