Oculis

Einar Stefánsson, augnlæknir og prófessor við Læknadeild

„Sjónhimnubjúgur er algengasta orsök sjóntaps hjá sykursjúkum og þar með ein af meginorsökum sjóntaps í heiminum. Rannsóknir okkar snúast um að meðhöndla sjónhimnubjúg vegna sykursýki með augndropum, frekar en að stinga nál inn í augað til að koma lyfjum inn,“ segir Einar Stefánsson, augnlæknir og prófessor í augnlækningum.

Hann á hér við rannsókn sem þeir Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræði við háskólann, vinna að. Rannsóknin snýst um að leita leiða til að gera lyfjagjöf skilvirkari í auga.

„Í dag sprautum við lyfjum inn í augu sjúklinga með sprautunál og það er augljóslega ekki viðunandi tækni,“ segir Einar en hann hefur unnið markvisst að rannsóknum á blindu vegna gláku og sykursýkiskemmda og er mjög kunnur á alþjóðavettvangi fyrir störf sín. Einar er margverðlaunaður fyrir rannsóknastörf sín og hann var valinn heiðursvísindamaður á Landspítala í fyrra.

Hugmyndir þeirra Einars og Þorsteins snúast um að losna við sprauturnar og óþægindin og áhættuna sem þeim fylgja. „Venjulegir augndropar skila aðeins þremur til fimm prósentum af lyfi inn í augað. Við reynum að auka hlutfallið í helming með því að nota svokallaðar syklódextrín-nanóagnir sem ferjur fyrir lyfið,“ segir Einar. Nanótæknin felst í því að nanóagnirnar, sem eru ósýnilegar með berum augum, ferja lyfin í augað.

Niðurstöðurnar úr rannsóknum þeirra félaga hafa nú þegar vakið heimsathygli en nýlega var birt grein í virtu vísindatímariti sem er byggð á klínískum rannsóknum á tækninni. „Japanskir samstarfsmenn gerðu rannsókn á augndropunum okkar sem sýnir fram á að þeir bæta sjón og minnka bjúg í sjónhimnu hjá sykursjúkum,“ segir Einar. Hann bætir því við að tæknin njóti nú einkaleyfis í Bandaríkjunum.

Einar vonast til að tæknin bæti heilsu og líðan sjúklinga með sjónhimnusjúkdóma. Hægt sé að meðhöndla sjónhimnusjúkdóma með augndropum þannig að sjúklingar geti losnað undan nálarstungum í auga og fengið augndropa í staðinn. Ekki þarf að fjölyrða um lífsgæðin sem þessu fylgja.

„Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að sprotafyrirtækið Oculis ehf., sem á einkaleyfið og er meðal annars í eigu Landspítalans og háskólans, geti haft verulegar tekjur í framtíðinni af einkaleyfisvarinni tækni til lyfjagjafar í auga.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is