Marsýn

Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Hafið er auðlind fyrir okkur Íslendinga í víðum skilningi og fiskur ein mikil- vægasta útflutningsafurðin. Þrátt fyrir aukna tækni við veiðarnar fylgja enn ýmsar hættur sjómennskunni og kostnaður við útgerðina hefur farið vaxandi, ekki síst vegna hækkunar á elds- neyti. Því er mikilvægt að draga úr hættu og minnka kostnað við veiðarnar. Þar kemur Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiski- og fiskavistfræði, til sögunnar. Hún vinnur nú ásamt Kai Logemann, verkefnisstjóra hjá Líf- og umhverfisvísindastofnun, og fleirum að þróun á nýju upplýsingakerfi sem einfaldar veiðarnar á margvíslegan hátt og eykur öryggi við þær.

„Þörfin fyrir réttar upplýsingar um ástand sjávar hefur farið stigvaxandi með auknum kostnaði við útgerð og umferð á sjó. Hver klukkustund sem fer í að leita að fiski eða réttum aðstæðum til togveiða kostar allt að 100 þúsund krónur eða jafnvel meira. Þróun upplýsingakerfisins okkar mætir þessari þörf hjá sæfarendum,“ segir Guðrún.

Með nýja upplýsingakerfinu, HISA (hydrodynamic information system for the North Atlantic), er spáð fyrir um ástand sjávar, svo sem ölduhæð, hitastig og strauma, auk þess sem það gefur mynd af lagskiptingu og útbreiðslu fiskstofna. Við hönnun upplýsingakerfisins er áhersla lögð á samvinnu við atvinnulífið en fyrirtækin Huginn, Vinnslustöðin, HB Grandi og Síldarvinnslan taka öll þátt í verkefninu. Að auki á háskólinn samstarf við Veðurstofu Íslands, Siglingastofnun, Hafrannsóknastofnunina og Reiknistofu í veðurfræði um þróun lausnarinnar. Kveikjan að upplýsingakerfinu var sérstakt líkan sem þróað var til að gefa mynd af straumum og flæði sjávar í kringum Ísland. „Kai Logemann hafeðlisfræðingur átti veg og vanda af þróun straumlíkansins, sem gengur undir nafninu CODE,“ segir Guðrún og bætir við: „Upplýsingarnar sem líkanið veitir eru augljóslega mikilvægar fyrir okkur sem hér búum og byggjum afkomu okkar á sjávarauðlindinni.“

Þróunin á straumlíkaninu stóð yfir í sjö ár en það er keyrt í mjög hárri upplausn í þrívídd og gefur upplýsingar um flæði sjávar á þriggja tíma fresti. Líkanið og upplýsingakerfið munu saman gefa vísbendingu um hvar öruggast sé að sigla og kasta út veiðarfærum ef afli á að koma í þau.

„Tilkoma straumlíkansins og upplýsingakerfisins gefur óteljandi möguleika bæði hvað varðar rannsóknir á lífverum hafsins, sem og hagnýtingu sem byggist á spám um ástand sjávar. Þannig eru nú þegar komin af stað verkefni sem sýna útbreiðslu fiskstofna m.t.t. umhverfisþátta á hverjum stað hverju sinni og auka þannig skilning okkar á áhrifum umhverfis á útbreiðslu, vöxt og viðgang helstu nytjafiska okkar,“ segir Guðrún. Hún segir að fyrirtækið Marsýn ehf. hafi nú verið stofnað um áframhaldandi þróun upplýsingakerfisins og straumlíkansins en eigendur fyrirtækisins eru m.a. Háskóli Íslands og Reiknistofa í veðurfræði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is