Áburður framleiddur á hagkvæmari hátt

„Ég hef unnið að þessum hugmyndum í tæpan áratug með samstarfsmönnum mínum við Háskóla Íslands, Danmarks Tekniske Universitet (DTU) og Stanford-háskóla. Vísindamenn hafa reynt við þetta draumaefnahvarf í áranna rás því að ákveðnar bakteríur í náttúrunni hafa gert þetta í milljónir ára,“ segir Egill Skúlason, sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans. Þar lýsir hann rannsóknum sínum og samstarfsmanna sinna, en auk hans koma þau Younes Abghoui, Anna Garden, Valtýr Freyr Hlynsson, Snædís Björgvinsdóttir og Hrefna Ólafsdóttir að verkefninu hér á landi.

Verkefnið fékk fyrstu verðlaun í samkeppninni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands árið 2013 og miðar að því að framleiða ammóníak með rafefnafræðilegum aðferðum en þar eru rafspenna og rafskaut notuð til framleiðslunnar. Sú framleiðsla er lykilskrefið í að búa til áburð til matvælaframleiðslu á hagkvæmari og umhverfisvænni hátt en annars er unnt.

„Í iðnaðarferlinu sem notað er til framleiðslu á áburði í dag eru nitur- og vetnissameindir hvarfaðar saman í ammóníak á yfirborði járns, sem er þá efnahvati, en það þýðir að járnið hraðar efnahvarfinu. Ferlið var uppgötvað fyrir 100 árum og er talið hafa verið meginástæða fólksfjölgunar í heiminum á 20. öld. Þetta iðnaðarferli krefst hins vegar hás hita og mikils þrýstings og verksmiðjurnar eru því aðeins á útvöldum stöðum í heiminum. Því þarf að flytja ammoníakið og/ eða áburðinn heimshorna á milli með tilsvarandi kostnaði og mengun,“ bendir Egill á.

Egill vinnur að tölvuútreikningum á rafefnafræðilegri myndun ammoníaks og segir að með þeim hafi hann og starfsmenn hans fundið nýja tegund efnahvata í stað járns sem lofa góðu. Verið er að prófa þessa efnahvata með tilraunum í Danmörku og það standi einnig til hér á landi. „Ef okkur tekst að finna nýja leið til að mynda ammoníak við herbergishita og -þrýsting verður hægt að vera með litlar „efnaverksmiðjur“ hvar sem er í heiminum, t.d. á bóndabýlum. Þar yrði efnahvarfið knúið áfram með rafmagni eða sólarorku. Þetta myndi draga úr orkunotkun og mengun. Lífsgæðin í heiminum myndu batna, sérstaklega á fátækustu stöðum heimsins, og í kjölfarið drægi að öllum líkindum úr óheftri og óeðlilegri fólksfjölgun,“ segir Egill að lokum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is