Algengar spurningar

Hverjir geta leitað til Hugverkanefndar?

Allir starfsmenn Háskóla Íslands og Landspítala, nemendur (sem þiggja greiðslur frá stofnunum) og rannsóknarstyrkhafar.

Hvers vegna ætti ég að leita til Hugverkanefndar?

Ef þú ert með uppfinningu eða rannsóknaniðurstöðu sem þú telur að geti verið einkaleyfishæf eða unnt að hagnýta, ber þér samkvæmt lögum um uppfinningar starfsmanna og starfsreglum nefndarinnar að tilkynna það til Hugverkanefndar.

Allir starfsmenn og nemendur (sem þiggja greiðslur frá stofnunum) geta þar að auki snúið sér til Hugverkanefndar til að fá margvíslega aðstoð varðandi hagnýtingu annarra rannsóknaniðurstaðna og þekkingar.

Þeir sem hafa áhuga á að skoða hvort rannsóknir þeirra séu þess eðlis að ástæða sé til að huga að hagnýtingu ættu tvímælalaust að snúa sér til nefndarinnar.

Hvenær þarf ég að tilkynna rannsóknaniðurstöður til Hugverkanefndar?

Tilkynna þarf Hugverkanefnd um uppfinningu eða rannsóknarniðurstöðu áður en hún er gerð opinber, hvort heldur sem það er í ræðu eða riti. Einkaleyfisvernd er háð því að uppfinning hafi ekki verið birt og skiptir þá ekki máli hvar í heiminum birtingin á sér stað.

Reglunum er ekki ætlað að hafa áhrif á hefðbundinn rétt starfsmanna til að birta t.d. bækur eða greinar að teknu tilliti til innlagnar einkaleyfisumsóknar.

Hvaða gerist eftir tilkynningu til Hugverkanefndar?

Fyrsta skrefið er að meta rannsóknaniðurstöður (uppfinningu/nýjung) með tilliti til hvort ákjósanlegt sé að sækja um einkaleyfi og hvort hagnýting sé vænlegur kostur fyrir stofnanirnar og starfsmanninn sem í hlut á. Ef Hugverkanefnd metur það ákjósanlegt að fara áfram með verkefnið felur hún Auðnu-tæknitorgi ehf. að gera viðskiptagreiningu á uppfinningunni. Ákveði Hugverkanefnd að sækja um einkaleyfi fjármagnar nefndin þá vinnu.

Auðna-tæknitorgi hefur umsjón með einkaleyfum sem framseld hafa verið til stofnananna og vinnur að markaðssetningu og hagnýtingu þeirra. Hagnýting getur verið í formi nytjaleyfissamnings við starfandi fyrirtæki eða sprotafyrirtæki.

Ef ákveðið er að stofna fyrirtæki er samið um hlut stofnananna í fyrirtækinu og síðan aðstoðar Auðna-tæknitorg við stofnun fyrirtækis. Starfsmaður á rétt á hlutdeild í fjárhagslegum ágóða af hagnýtingu uppfinningar/nýjungar.

Hvað fæ ég fyrir minn þátt í uppfinningu/nýjung?

Meginreglan við skiptingu arðs af hagnýtingu uppfinningar/nýjungar er:
a) Starfsmaður (starfsmenn) - 35%.
b) Rannsóknastarf starfsmanns -10%.
c) Starfseining starfsmanns - 10%.
d) HÍ og LSH - 45% sem ráðstafað er að hluta til Hugverkanefndar samkvæmt ákvörðun rektors HÍ eða forstjóra LSH, eftir því sem við á. Þegar arður af uppfinningu/nýjung er tilkominn vegna nytjaleyfissamnings sem Auðna-tæknitorg hefur komið á, fær Auðna-tæknitorg 5% af heildar arði og dregst sá hlutur frá óskiptum hlut Háskóla Íslands og Landspítala.

Hugverkanefnd er þó heimilt við ákvörðun um skiptingu arðs að taka tillit til annarra sjónarmiða t.d. framlags aðila til þróunar uppfinningar/nýjungar og hvernig fjármögnum starfsins (aðstaða, búnaður, tæki, starfsmenn) hafi verið háttað.

Hverjir meta uppfinningar/nýjungar sem sendar eru til Hugverkanefndar?

Nefndin metur uppfinningar og hugmyndir með aðstoð Auðnu-tæknitorgs ehf. Þess er gætt að þeir sem fengnir eru til matsins viðhafi trúnað, hafi nægilega þekkingu á viðkomandi sviði, en séu jafnframt ekki tengdir rannsóknunum eða viðkomandi aðila með beinum hætti. Ef unnin er könnun á nýnæmi er almennt leitað til Hugverkastofu eða einkaleyfaskrifstofa sem sérhæfa sig í slíkum könnunum. Ritun einkaleyfisumsókna er úthýst til einkaleyfasérfræðinga.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is